Menning

Einvígi í Nýlistasafninu

Músíkvatur er einn þeirra sem koma fram í Jólaseríu Tilraunaeldhússins.
Músíkvatur er einn þeirra sem koma fram í Jólaseríu Tilraunaeldhússins.

Jólasería Tilraunaeldhússins fer af stað í kvöld þegar Borko, ásamt hljómsveit, og Magnús Helgason stilla saman strengi sína klukkan átta í Nýlistasafninu. "Verkið hans Magnúsar heitir "Það er lifandi en getur dáið" og í kvöld verður einvígi á milli hans og Borko," segir Kristín Björk Kristjánsdóttir sem ásamt Jóhanni Jóhannssyni og Hilmari Jenssyni skipar Tilraunaeldhúsið.

Á fimmtudaginn verður svo annað kvöldið í röðinni og munu þá þrjú einvígi fara fram. "Þarna koma fram saman Gunnar Örn Tynes úr hljómsveitinni Múm og Eyrún Sigurðardóttir úr Gjörningaklúbbnum, Músíkvatur sem einnig er í hljómsveitinni Apparat og Örvar Þóreyjarson Smárason og að lokum Hildur Guðnadóttir úr Stórsveit Nix Noltes og Ingibjörg Birgisdóttir. Það hefur verið okkar áhersla í Tilraunaeldhúsinu að búa til skringilega tónleika og etja saman listamönnum í samstarfsverkefni og þetta erum við að leika okkur með í Jólaseríunni. Þar stefnum við saman myndlistarmanni á móti tónlistarmanni og er mjög misjafnt hvort listamennirnir æfi sig fyrir tónleikana eða hvort úr þessu verður einn allsherjar spuni."

"Á laugardaginn munu svo Benni Hemm Hemm og Paul Lydon stilla saman strengi sína, einnig í Nýlistasafninu klukkan átta en Lydon hefur búið á Íslandi í um 15 ár, gaf út plötuna Vitlaust hús á sínum tíma og semur einhverja flottustu dægurlaga texta á íslenskri tungu sem um getur." Ókeypis er inn á öll kvöldin og því upplagt að skella sér í Nýlistasafnið og fylgjast með spennandi einvígjum á milli framúrstefnulegra listamanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.