Sport

Detroit lá í Utah

Andrei Kirilenko átti frábæran leik fyrir Utah Jazz í nótt gegn Detroit
Andrei Kirilenko átti frábæran leik fyrir Utah Jazz í nótt gegn Detroit NordicPhotos/GettyImages

Fimm leikir voru háðir í NBA deildinni í körfubolta í nótt og þar bar hæst að sjóðheitt lið Detroit Pistons tapaði óvænt fyrir Utah Jazz á útivelli. Kobe Bryant tryggði LA Lakers sömuleiðis óvæntan sigur á Dallas Mavericks með þriggja stiga körfu í lokin og Phoenix lá fyrir New Orleans á heimavelli sínum.

Philadelphia vann góðan sigur á Minnesota á heimavelli 90-89. Chris Webber skoraði 27 stig og hirti 21 frákast fyrir Philadelphia og Allen Iverson skoraði 19 stig og gaf 10 stoðsendingar. Wally Szczerbiak skoraði 23 stig hjá Minnesota.

Milwaukee vann New York 112-92. Michael Redd skoraði 31 stig fyrir Milwaukee en Channing Frye skoraði 30 fyrir New York.

LA Lakers lagði Dallas 109-106 á útivelli. Kobe Bryant skoraði 43 stig fyrir Lakers, en Dirk Nowitzki skoraði 27 stig og hirti 15 fráköst fyrir Dallas.

New Orleans gerði góða ferð til Phoenix og sigraði 91-87. J.R. Smith skoraði 26 stig og hirti 10 fráköst fyrir New Orleans, en Raja Bell var atkvæðamestur hjá Phoenix með 24 stig og hitti úr öllum fimm þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Steve Nash skoraði 14 stig og gaf 16 stoðsendingar.

Loks vann Utah Jazz óvæntan sigur á Detroit 92-78, þar sem Detroit skoraði aðeins 27 stig í síðari hálfleik. Mehmet Okur var stigahæstur í liði Utah með 24 stig og hirti 12 fráköst og Andrei Kirilenko var með 22 stig, 12 fráköst, 7 stoðsendingar og varði 4 skot. Utah var aðeins með 9 leikfæra menn í leiknum vegna meiðsla. Rasheed Wallace var skárstur í slöku liði Detroit og skoraði 16 stig og hirti 8 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×