Innlent

Lúðvík víttur í þinginu

Halldór Blöndal, forseti Alþingis, vítti Lúðvík Bergvinsson, þingmann Samfylkingar, í umræðum um störf þingsins fyrir stundu. Lúðvík fór í ræðustól í upphafi þingfundar til að tala um störf þingsins og krefjast skýringa á því hvers vegna ekki fengist utandagskrárumræða um störf einkavæðingarnefndar. Halldór svaraði honum úr forsetastóli og sló í bjölluna en þá vændi Lúðvík Halldór um ritskoðun, sagði hann berja sífellt í bjölluna á meðan þingmenn hefðu orðið og eðlileg umræða gæti ekki farið fram vegna hávaða í forseta. Halldór rak Lúðvík úr ræðustóli í kjölfarið og sagði að orð hans, „Forseti, ég hef orðið“, væru vítaverð. Þar með hafði forseti beitt 89. grein þingskaparlaga um þingvíti en þar segir: „Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert,“ og nefna þau ummæli sem hann vítir. Nú er þingmaður víttur tvisvar á sama fundi og má þá forseti, með samþykki fundarins, svipta þingmanninn málfrelsi á þeim fundi. Þetta er í annað sinn sem Halldór vítir Lúðvík fyrir ummæli í garð forseta Alþingis, auk þess sem Halldór vítti Ögmund Jónasson, þingmann Vinstri grænna, árið 2002 fyrir svipaðar sakir. Þá hafði enginn þingmaður verið víttur síðan árið 1957.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×