Viðskipti innlent

Hafa samstarfið við SAS í huga

Forstjóri SAS ætlar að slíta öllu samstarfi við Icelandair um flug á Norðurlöndunum ef FL Group kaupir Sterling-flugfélagið. Þetta kom fram í danska blaðinu Börsen í morgun. Talsmaður Flugleiða segir að samstarfið við SAS hafi verið gott og menn ætli að hafa það í huga við samningaborðið. Það er FL Group, móðurfélag Icelandair, mikið kappsmál að samningar náist enda myndi félagið eflast mjög á Evrópumarkaði og koma í veg fyrir skæða samkeppni á Ameríkumarkaði. Ef ekki yrði af kaupunum gæti Sterling sameinast Iceland Express, enda sömu eigendur að baki báðum félögum. Þar yrði til nýr flugrisi í beinni samkeppni við Flugleiðir á öllum sviðum. Guðjón Arngrímsson, talsmaður Icelandair, segir að samstarfið við SAS sé eitt af því sem félagið þurfi að taka tillit til í viðræðunum. Að öðru leyti vilji FL Group ekki tjá sig um viðræðurnar. Pálmi Haraldsson er fyrrum stjórnarmaður í Icelandair, og fái hann og aðrir eigendur greitt fyrir Sterling í hlutabréfum í FL Group gæti hann ratað þangað inn aftur. Þá eru bæði félögin hér í farþegaflutningum komin í sömu hendur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×