Innlent

Styrkir stöðu Húsavíkur

 "Þetta staðfestir einfaldlega það sem við teljum okkur vita um vilja íbúa hér á svæðinu til að fá hingað orkufrekan iðnað," segir Reinhard Reynisson, bæjarstjóri á Húsavík. Hann vísar þar til könnunar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins um viðhorf íbúa á Norðurlandi til stóriðju. Hann telur niðurstöðurnar ótvírætt styrkja stöðu Húsavíkur þegar og ef kemur að því að ákveða staðsetningu stóriðju á Norðurlandi, auk þess sem Húsavík sé best í sveit sett með tilliti til nálægðar orkuauðlinda. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, segist ekki óttast að staðsetning hugsanlegs álvers ráðist af þessum könnunum. "Ég trúi því ekki að menn taki ákvarðanir í svona stóru máli á grundvelli einhverra skoðanakannana, það eru allt aðrir þættir sem hljóta að ráða í þeim efnum," segir hann og bendir á að fjárfestar hljóti að hafa mikið að segja um staðsetningu. Ársæll Guðmundsson, sveitarstjóri í Skagafirði, segir augljóslega mikla andstöðu við álversbyggingu í Skagafirði og stjórnvöld hljóti að skoða málið í því ljósi. "Þessar niðurstöður koma mér ekkert á óvart og auðvitað hljótum við að taka mið af afstöðu almennings í þessum efnum," segir hann. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru um 66 prósent Þingeyinga mjög eða frekar hlynnt því að álver verði reist í nágrenni bæjarins. Tæplega 49 af hundraði Akureyringa vilja fá álver í nágrenni Akureyrar en áhugi Skagfirðinga á að fá álver til sín er sýnu minnstur. Þar eru ríflega 37 prósent fylgjandi álveri í firðinum en tæp 46 prósent því algjörlega mótfallin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×