Menning

Hreyfilistaverk úr hverju sem er

Gangandi óskabein úr kjúklingi og fluga sem sveimar í sífellu í kringum ljósaperu eru meðal þess sem sjá má í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur þessa dagana. Það er bandaríski listamaðurinn Arthur Ganson sem á heiðurinn af þessu, en hann býr til vægast sagt óvenjulega hluti úr óvenjulegum hlutum. Hann ætlar alla vikuna að vinna með íslenskum börnum að hreyfilistaverki sem búið er til úr nánast hverju sem er. Ganson lýsir verkum sínum sem samblandi af verkfræði og list. Verk hans, sem eru oft mikil völundarsmíð, eru gerð úr hlutum úr okkar daglega umhverfi en hafa fengið vægast sagt nýtt hlutverk. Búið er að safna saman í sal í Orkuveituhúsinu ýmsum hlutum og fleiri eru væntanlegir en úr þeim ætlar hann að vinna listaverk með íslenskum listamönnum, kennurum og verkfræðingum en þó aðallega íslenskum börnum. Ganson segir að viðfangsefnið verði að setja af stað vélræna keðjuverkun eða stóra vél. Fjölmargir venjulegir og einfaldir hlutir verði teknir fram og þeim raðað saman í rýminu með þeim hætti að einn hlutur hafi áhrif á annan, að orkan flytjist áfram. Þessi vinna fer fram eftir hádegi á hverjum degi í höfuðstöðvum Orkuveitunnar og þangað geta börn komið og beitt hugmyndafluginu. Ganson segir tækniþekkinguna koma frá fullorðna fólkinu en hugmyndirnar frá börnunum. Þetta gerist með því að horfa á hlut og leika með hann, en börn séu snillingar í frjálsri hugsun. Afrakstur vinnunnar kemur svo í ljós á sunnudaginn þegar verkið verður sýnt en Arthur Ganson segist ekki hafa hugmynd um hvernig verkið verður eða hvers megi vænta af íslensku börnunum. Hann sé reyndar mjög spenntur að sjá hvernig þau vinni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.