Innlent

Guðni vill rífa Steingrímsstöð

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra lýsti því yfir á Alþingi í fyrradag að hann væri hlynntur því að rífa Steingrímsstöð í Sogi. Hann lýsti þessu yfir þegar verið var að ræða þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar um rannsóknir á afdrifum laxa í sjó. Í Steingrímsstöð er virkjað fall Efra-Sogsins úr Þingvallavatni í Úlfljótsvatn. Áður en virkjunin var byggð á sjötta áratugnum hrygndi urriðinn í útfalli Þingvallavatns. Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, spurði ráðherrann hvort hann væri ekki hlynntur því að fjarlægja Steingrímsstöð svo endurreisa mætti urriðastofninn. "Ég er stuðningsmaður þess," sagði Guðni. "Það væri göfugt af Landsvirkjun að gefa það til málsins í stað þess að þvælast fyrir mikilvægum framtíðarmálum sem snúa að hinni miklu tómstundaiðju Íslendinga, að rækta fisk svo hægt sé að veiða hann." Guðni sagðist telja þetta mikilvægt mál og litla fórn af hálfu Landsvirkjunar eða ríkisins að huga að þeim merkilega urriðastofni sem Þingvallavatn geymir. "Mín skoðun er því alveg klár," sagði Guðni. Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segist ekki viss um að það yrði urraðanum til gagns að fjarlægja stöðina. "Landsvirkjun hefur verið að vinna að því að reisa við urriðastofninn á undanförnum árum með ágætum árangri," segir Þorsteinn. "Það hefur verið gert með því að laga aðstæður við útfallið úr Þingvallavatni og hafa vatnsrennsli á efra svæðinu. Það liggur ekkert fyrir um það að það sé til bóta fyrir urriðann að fjarlægja stöðina." Þorsteinn segir að Steingrímsstöð sé 26 megavött og hún sé að skapa verðmæti fyrir tugi og örugglega hundruð milljóna króna á hverju ári. Hann hafi ekki heyrt neitt um það hvað ætti að koma staðinn ef hún yrði fjarlægð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×