Innlent

Þróunarsamvinna við Srí Lanka

Tvíhliða samningur um þróunarsamvinnu Íslands við Srí Lanka var undirritaður í Kólombó, höfuðborg Srí Lanka, í dag. Samningurinn er til fimm ára og nemur framlag Íslands til þróunarstarfs í landinu á þessu ári 75 milljónum króna. Þróunarsamvinnustofnun Íslands mun sjá um framkvæmd verkefna í samstarfi við stjórnvöld á Srí Lanka. Þetta er í fyrsta sinn sem stofnunin sinnir þróunarstarfi utan Afríku þar sem stofnunin er í samstarfi við fjögur ríki. Ákvörðun um samstarfið við Srí Lanka var tekin í byrjun desember á síðasta ári. Upphaflega átti upphæðin að nema 25 milljónum króna en í ljósi náttúruhamfaranna í Suðaustur-Asíu og afleiðinga þeirra ákvað ríkisstjórn Íslands að hækka framlagið um 50 milljónir króna. Starfið mun taka mið af afleiðingum flóðanna og beinast að uppbyggingu í strandbyggðum, fræðslu og tæknivæðingu á sviði fiskveiða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×