Sport

Arsenal keppir við Real um Robinho

Real Madrid leiðir enn kapphlaupið um brasilíska ungstirnið Robinho, að sögn umboðsmanns leikmannsins, þrátt fyrir að Arsenal hafi gert formlegt 14 milljóna punda tilboð í hann um helgina. Umboðsmaðurinn Juan Figer segir að Robinho hafi fyrir löngu gert samkomulag við Real Madrid um að ræða fyrst við þá þegar kæmi að því að hann færði sig frá Santos yfir til liðs á meginlandi Evrópu. "Þess vegna hafa Real forskot," segir Figer. "En félagið hefði átt að vera fyrir löngu búið að gera beinan samning við Robinho því nú hefur Arsenal lýst yfir miklum áhuga á að fá hann," segir Figer, en þess má geta að Robinho er samningsbundinn Santos til ársins 2008 en er með ákvæði í samningum sínum um að ef tilboð upp á 27 milljónir komi megi forráðamenn Santos ekki hafna því. "Robinho er við stjórnvölinn og með frammistöðu hans í álfukeppninni hefur hann hækkað sig í verði. Hann er auk þess besti leikmaður brasilísku deildarinnar og enginn vill sjá hann yfirgefa landið, ekki einu sinni forsetinn," segir Figer.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×