Innlent

Sterk staða nýkjörins formanns

Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor segir að það hefði verið slæmt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að vinna formannsslaginn í Samfylkingunni naumlega. "Kjörið var afgerandi. Í kjarna Samfylkingarinnar stóð þetta áreiðanlega tæpar. Umboð hennar er hins vegar mjög skýrt og það þýðir að valdastaða hennar gagnvart öðrum forystumönnum Samfylkingarinnar er sterk," segir Gunnar Helgi. Baldur Þórhallsson dósent í stjórnmálafræði tekur í sama streng. " Þetta var mjög mikilvægur landsfundur fyrir Samfylkinguna en þar var nær algerlega skipt um forystusveit flokksins. Eftir er að sjá hvort þessu fylgja ný vinnubrögð og nýr stjórnunarstíll." Baldur segir afgerandi kosningu Ingibjargar Sólrúnar óneitanlega nokkurn skell fyrir þann hluta þingflokksins sem studdi Össur Skarphéðinsson. "Sú spurning er áleitin hvort þeir sem yfirgáfu valdapósta nú hafi verið fyllilega í takt við hinn almenna flokksmann," segir Baldur. Hann telur það verða prófstein fyrir Ingibjörgu Sólrúnu hvort henni takist að höfða til hagri jafnaðarmanna sem kjósi Sjálfstæðisflokkinn. Það geti orðið erfiður róður að koma fylgi stjórnarflokkanna niður fyrir 50 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×