Innlent

Átti ekki að fá gild skír­teini

Flugvélin sem hrapaði í Skerjafirði um verslunarmannahelgina árið 2000 átti ekki að fá skráningar- og lofthæfisskírteini í því ástandi sem hún var, samkvæmt skýrslu sérskipaðrar rannsóknarnefndar undir forystu Sigurðar Líndals lagaprófessors, sem samgönguráðherra skipaði. Samkvæmt heimildum fréttastofu kemur fram að vélin sem var af gerðinni Cessna 210, hefði hvorki haft skráningar né lofthæfisskírteini ef rétt hefði verið staðið að málum. Slysið varð um verslunarmannhelgina árið 2000 og var vélin að koma frá Vestmannaeyjum og í því létust fimm farþegar og flugmaðurinn. Flugmálastjórn hafði áður viðurkennt að vélin hefði hvorugt skírteinið átt að fá en en vísaði ábyrgðinni á viðhaldsverkstæði flugrekandans Ísleifs Ottesen, þar sem gögnin sem lágu til grundvallar hafi ekki verið fullnægjandi. Flugmálayfirvöld bera hinsvegar ábyrgðina samkvæmt skýrslunni núna, enda hefðu þeir átt að sannreyna gögnin. Deilt var á flugmálayfirvöld á sínum tíma fyrir það að viðhaldsverkstæðið hefði selt hreyfilinn úr landi áður en rannsóknin var til lykta leidd. Deilt var um hvort hreyfilinn hefði verið úrbræddur. Skýrsluhöfundar núna telja hinsvegar að þetta hafi ekki valdið straumhvörfum í málinu og hefði ekki haft áhrif á niðurstöður nefndarinnar núna. Á það er þó fallist með rannsóknarnefnd flugslysa að líklegast sé að eldsneytisskortur og þreyta flugmanns hafi valdið sjálfu slysinu. Í grófum dráttum komast skýrsluhöfundar þó að svipuðum niðurstöðum og rannsóknarnefnd flugslysa en efnið er mun yfirgripsmeira enda horft til fleiri þátta. Skýrslan verður líklega kynnt fjölmiðlum á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×