Viðskipti innlent

SPH býður vildarþjónusta fyrir fyrirtæki

Sparisjóður Hafnarfjarðar (SPH) býður fyrirtækjum upp á vildarþjónustu sem sniðin er að þörfum fyrirtækja. Vildarþjónusta hefur verið í boði fyrir einstaklinga og fengið afar góðar viðtökur. Markaðsstjóri SPH segir þetta þjónustu sem hafi vantað á fyrirtækjamarkaði.

Þá segir hann að rannsóknir hafi leitt í ljós að mörg fyrirtæki vildu fá heildarþjónustu þar sem allt væri á einum stað og góða og persónulega þjónustu. Segir hann vildarþjónustuna falla vel að þeirri stefnu SPH að bjóða fyrirtækjum alhliða fjármálaþjónustu.

Í vildarþjónustu fyrirtækja felst greiðsluþjónusta sem er ókeypis fyrsta árið, greiðslukort, sem einnig eru ókeypis fyrsta árið, sérstakur þrepaskiptur sparnaðarreikningur með háum innlánsvöxtum, ókeypis innkaupakort, afslættir af lántökugjaldi og bílalán á hagstæðum kjörum.

Með vildarþjónustu hafa fyrirtæki kost á að auka hagræðingu í rekstri með sparnaði við umsýslu gagna auk þess sem nýting á tíma og fjármunum verður betri.

Í greiðsluþjónustu annast SPH greiðslu á föstum útgjöldum fyrirtækisins sem jöfnuð eru yfir 12 mánaða tímabil. Kostirnir felast í betri yfirsýn yfir útgjöldin, reikningarnir eru greiddir á réttum tíma og vanskilagjöld og gluggaumslög heyra sögunni til. Auk greiðsluþjónustu má nefna beingreiðslur fyrir föst útgjöld og reglulegar greiðslur, t.d. vegna starfsmannaferða.

Þá býður SPH fyrirtækjakort og innkaupakort, hvort tveggja kreditkort en með því síðarnefnda er hægt að fylgjast náið með útgjöldum fyrirtækisins, greina þau niður á korthafa, deildir, stað, stund og söluaðila. Hvorki færslugjöld né seðilgjöld eru innheimt vegna notkunar kortsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×