Innlent

Engar ákærur á hendur mótmælendum

Engar ákærur hafa verið gefnar út á hendur erlendum og íslenskum mótmælendum sem í sumar höfðu sig talsvert í frammi á virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka og byggingarlóð álversins á Reyðarfirði þrátt fyrir fjaðrafok í tengslum við mótmælin og yfirlýsingar um ítrekuð lögbrot. Að sögn Lárusar Bjarnasonar, sýslumanns á Seyðisfirði, hefur embætti hans ekki gefið út ákærur á hendur neinum úr hópi mótmælenda vegna atburða við Kárahnjúka og í Fljótsdal. Ein kæra vegna skemmdarverka var lögð fram vegna rúðubrota í vörubíl við Kárahnjúka en ekki hefur tekist að sanna að mótmælendur hafi verið þar á ferð og þeir staðfastlega neitað. Sömu sögu er að segja af embætti sýslumanns á Eskifirði. Engar ákærur hafa verið eða verða gefnar út vegna mótmæla við byggingarlóð álvers Fjarðaáls þar að sögn Ingerar L. Jónsdóttur sýslumanns og enn óljóst með hvort ákæra verður gefin út vegna kranaklifurs mótmælenda á Reyðarfirði. Fjölmennt lögreglulið var sem kunnugt er stefnt austur í sumar vegna mótmælanna, meðal annars stór hópur frá sérsveit ríkislögreglustjóra sem dvaldi eystra um nokkurra vikna skeið til þess að sögn að hafa eftirlit með mótmælendum. Hluti mótmælendanna undirbýr nú hins vegar kæru á hendur lögreglu vegna ólögmætra handtaka og frelsissviptingar en að sögn lögmanns mótmælendanna mun kæra að öllum líkindum verða send ríkissaksóknara á næstu dögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×