Viðskipti innlent

Hámark íbúðalána lækkað í 80%

Landsbankinn hefur lækkað hámark íbúðalána úr 90% í 80% af markaðsvirði eigna. Bankinn segir ákvörðunina tekna í ljósi þess að aðstæður á fasteignamarkaði séu að breytast og ekki sé gert ráð fyrir að áframhald verði á þeim hröðu verðhækkunum sem átt hafa sér stað að undanförnu. Við slíkar aðstæður megi lítið út af bregða hjá lántakendum til þess að raska verulega fjárhag þeirra, sérstaklega þar sem um verðtryggð lán er að ræða. Landsbankinn grípi því til þessara aðgerða til að draga úr hættu á því að viðskiptavinir bankans lendi í þeirri stöðu að lán þeirra verði hærri en markaðsverðmæti eignarinnar. Auk þess sé bankinn að leggja sitt af mörkum til þess að slá á þenslu í þjóðfélaginu og styðja Seðlabankann í því markmiði að halda verðbólgu í skefjum og viðhalda þannig efnahagslegum stöðugleika. Í desember í fyrra lækkaði Landsbankinn hámark íbúðalána sinna úr 100% í 90%.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×