Sport

Birgir Leifur með milljón á árinu

Kylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG hefur unnið sér inn rétt um eina milljón íslenskra króna á Áskorendamótaröðinni á þessu ári og er í 83. sæti fyrir lokamótið sem fram fer um helgina á Tenerife. Aðeins 15 efstu kylfingarnir tryggja sér þátttökurétt á Evrópsku mótaröðinni og Birgir Leifur á enga möguleika á því. Úrtökumót fyrir Evrópsku mótaröðina fer fram í næsta mánuði og að venju er það skipt í þrjú stig. Verði Birgir Leifur á svipuðum stað eftir lokamót Áskorendamótaraðarinnar um helgina sleppur hann við fyrsta stigið en fer beint inn á annað stigið. Hann þarf hins vegar að vera á meðal 40 efstu eftir mót ársins til þess að komst beint inn á þriðja stig úrtökumótsins. Fyrir ári síðan var Birgir Leifur aðeins einu höggi frá því að tryggja sér fullan þátttökurétt á Evrópsku mótaröðinni í ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×