Innlent

Einungis bundnir sannfæringu sinni

Sigurður Líndal, lagaprófessor við Háskóla Íslands, segist efast stórlega um að erindi Frjálslynda flokksins varðandi þingsæti Gunnars Örlygssonar sé tækt til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis. Sigurður segir stjórnarskrána skýra hvað þetti varði. Þingmenn séu ekki bundnir öðru en eigin sannfæringu. Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, sendi umboðsmanni Alþingis erindi í gær þar sem þess er farið á leit að Umboðsmaður kanni réttmæti þess að Gunnar Örlygsson færi sig á milli flokka á Alþingi. Gunnar sagði sig sem kunnugt er úr Frjálslynda flokknum í vor, gekk úr þingflokki þeirra og til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Í bréfi Margrétar segir að hún að ef slíkt sé leyfilegt þá geti það verið nýtt af tækifærissinnum sem geti þar með látið kjósa sig á þing en síðan yfirgefið flokk um leið og kjörbréf er afhent. Sigurður Líndal, lagaprófessor við Háskóla Íslands, segist undrast erindi Frjálslynda flokksins. Hann telji það ekki tækt til meðferðar hjá umboðsmanni, enda sé það skýrt í stjórnarskrá að Gunnari hafi verið heimilt að yfirgefa þingflokkinn og ganga til liðs við annan flokk. Í 48. grein stjórnarskrárinnar segir orðrétt: „Alþingismenn eru eingöngu bundnir að sannfæringu sinni og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“ Þetta ákvæði segir Sigurður að eigi uppruna sinn í Frakklandi og sé nauðsynlegt til að hægt sé að miðla málum á þingi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×