Innlent

Pompei norðursins í Vestmannaeyjum

Pompei norðursins mun rísa í Vestmannaeyjum. Grafa á upp hús og aðrar minjar sem urðu undir í gosinu árið 1973 og setja á fót sýningarsvæði um liðna tíð. Menningarfulltrúi Vestmannaeyja segir verkefnið verða unnið í samstarfi við fyrrum íbúa húsanna. Stefnt er að því að fara inn í vikurkantinn í austurbænum og grafa út allt að fjórtán hús. Eyjamenn sjá fyrir sér að í framtíðinni verði ferð á sýningarsvæðið eins og stíga inn í annan heim, eða liðna tíð, líkt og þegar farið er inn í Pompei í Róm. Reiknað er með að sum húsanna á svæðinu séu fallin en þó ekki öll. Kristín Jóhannsdóttir, menningarfulltrúi í Vestmannaeyjum, segir ástæðu til að ætla að ýmislegt standi, t.a.m. útveggir, þannig að finna megi áþreifanlegar gosminjar.    Hafist verður handa í maí næstkomandi en það er Ferðamálaráð sem styrkir verkefnið í upphafi. Gert er ráð fyrir að það taki einhver ár, ef ekki áratugi, enda á að vanda vel til verka. Strax á þessu ári getur fólk þó farið að fylgjast með; séð og snert það sem vikurinn skilar. Kristín segir að allt verði gert í góðri sátt við þá sem málið varði og segir að framundan séu spennnandi tímar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×