Skoðun

(Enn) Önnur skipulagsmistök í Reykjavík?

Skúli Magnússon skrifar
Fáir myndu neita því að húsið, eða réttara sagt "blokkin", við Vesturgötu 52 til 54 í Reykjavík er áberandi lýti á gamla Vesturbænum og kemst í flokk með mestu skipulagsmistökum í borginni; er þó af ýmsu að taka.

Ástæðan er auðvitað sú að blokkin gnæfir yfir nærliggjandi hús og hverfi sem að jafnaði samanstendur af tvílyftum timburhúsum með þriggja hæða steinhúsum á stöku stað, allt með tilheyrandi áhrifum fyrir útsýni, birtu og vindstrengi. Samt er blokkin við Vesturgötu ekki nema fimm hæðir!

 

Skúli Magnússon
Um þessar mundir vinna borgaryfirvöld að nýju skipulagi á því svæði í gamla Vesturbænum sem venjulega er kennt við slippinn og Mýrargötu. Fyrir reit sem kenndur er við Ellingsen og stendur vestast á Mýrargötu liggur fyrir samþykkt deiliskipulag um 7 hæða blokk. Fyrir reit fyrir vestan Héðinshúsið (Loftkastalann) liggur fyrir deiliskipulagstillaga um 8 hæða blokk. Fyrir svæðið í heild liggur fyrir rammaskipulagstillaga, þar sem gert er ráð fyrir því að byggingar verði almennt 5-7 hæðir með þeirri einu undantekningu að við Nýlendugötu á byggðin að vera (aðeins) allt að 5 hæðum. Samkvæmt tillögum borgaryfirvalda eiga við sjóinn að rísa 6 hæða byggingar sem munu væntanlega taka af allt útsýni til sjávar og loka gamla bæinn inni. Sumum kann e.t.v. að finnast það skoplegt að yfirlýst markmið með þessu rammaskipulagi er "lág byggð, 3 til 5 hæðir, uppleyst að hluta, opin í senn á móti sólarátt og að sjó." Íbúum í hverfinu er þó tæplega hlátur í hug.

Hvernig dettur einhverjum í hug að leggja fram tillögur um 5 til 7 hæða byggð í gamla Vesturbænum þegar að vítin til að varast eru svo borðliggjandi? Dagur B. Eggertsson, formaður skipulags- og byggingarnefndar, hefur á fundum með íbúum vakið athygli á því að landið halli í átt sjávar og því hljóti allir að sjá að það sé í góðu lagi að byggingar hækki eftir því sem landið lækki. Með þessum rökum væri auðvitað hægt að miða hæð byggðar á Mýrargötu-Slippsvæðinu við Landakotsspítala og byggja þar með 80 hæða skýjakljúfa með fram sjónum. Og e.t.v. er það þetta sem byggingaryfirvöld hefðu helst hafa viljað gera, ef þau hefðu ein verið í ráðum. Einhvers konar virðing fyrir byggðinni sem fyrir er, virðist a.m.k. algerlega hafa vikið fyrir eftirsókn í hámarksbyggingarmagn á hvern mögulegan byggjanlegan fermetra, auðvitað með tilheyrandi vandamálum fyrir dagvistun, skólakerfi, umferð og bílastæði. Stefnum við hraðbyri að enn einu skipulagsslysinu í Reykjavík?

Höfundur er íbúi við Bakkastíg í Reykjavík.

 




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×