Innlent

Nígeríumenn í gæsluvarðhaldi vegna meintra fjársvika

MYND/Róbert

Tveir Nígeríumenn, búsettir á Spáni, sitja í gæsluvarðhaldi hér á landi eftir að þeir voru teknir með 100 þúsund evrur, jafnvirði hátt í níu milljóna króna, í fórum sínum á leið úr landi á föstudaginn var.

Mennirnir eru grunaðir um fjársvik. Þeir voru fyrst stöðvaðir á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins á fimmtudag vegna ábendingar erlendis frá um að þeir kynnu að hafa fíkniefni meðferðis. Við leit fundust ekki fíkniefni á þeim en hins vegar fannst talsvert magn af svörtum bréfmiðum í peningaseðlastærð, joð, vaselín og álpappír og svokallaðan flúorlampa.

Samkvæmt erlendum lögregluyfirvöldum má nota tækin og efnin til tiltekinna fjársvika og því var ákveðið að leita á þeim þegar þeir færu á ný úr landi. Það var strax daginn eftir og þá fundust á þeim um 100.000 evrur í reiðufé. Að sögn yfirvalda gátu mennirnir ekki gefið trúverðugar skýringar á því hvers vegna þeir höfðu þessa fjármuni meðferðis og við leit á hótelherbergi mannanna fundust merki þess að framangreind efni hefðu verið notuð til peningafölsunar. Fölsuðu peningana hafi þeir svo selt hér á landi og svikið þannig út fé.

Lögregla hefur rökstuddan grun um að mennirnir eigi sér samstarfsmann eða -menn hérlendis og er unnið að rannsóknum á símtölum mannanna á meðan þeir dvöldu hér á landi og hugsanlegum bankaúttektum eða viðskiptum. Gæsluvarðhald yfir mönnunum rennur út á föstudag en lögreglan á Keflavíkurflugvelli rannsakar málið og nýtur aðstoðar embættis ríkislögreglustjóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×