Viðskipti innlent

Baugur orðaður við kaup á Moss Bros

Gengi hlutabréfa í bresku herrafataverslanakeðjunni Moss Bros hefur hækkað um rúm 13,6 prósent í kauphöll Lundúna í dag vegna orðróms um að Baugur ætli að kaupa verslanakeðjuna. Baugur er einn af stærstu hluthöfum Moss Bros í gegnum fjárfestingafélagið Unity, sem FL Group og Kevin Stanford standa að, með tæpan 30 prósenta hlut.

Fréttastofa Reuters gengi bréfa í Moss Bros hafa lækkað um þriðjung á síðastliðnu hálfu ári og sé fyrirtækið metið á um 69 milljónir punda eða 9,7 milljarða íslenskra króna. Moss Bros er meðal annars einkaleyfishafi á sölu Hugo Boss og Canali merkjanna í Bretlandi.

Reuters segir hins vegar að forsvarsmenn Baugs hafi neitað að staðfesta fréttir þessa efnis en vitna til breska dagblaðsins Sunday Telegraph, sem hefur eftir einum af stjórnendum Moss Bros, að talsverðar líkur séu á að Baugur ætli að gera kauptilboð í verslanakeðjuna. Líklegt sé að af því verði í lok janúar á nýju ári en gert er ráð fyrir að tilboðið hljóði upp á 85 til 90 pens á hlut.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×