Enski boltinn

Kemur Graham Poll til varnar

Graham Poll vísar John Terry af velli á móti Tottenham á sunnudag
Graham Poll vísar John Terry af velli á móti Tottenham á sunnudag NordicPhotos/GettyImages

Keith Hackett, yfirmaður dómarastéttarinnar á Englandi, hefur komið Graham Poll dómara til varnar eftir að einn leikmanna Chelsea hélt því fram að hann hefði sagst vera að "kenna Chelsea lexíu" með því að spjalda þá í leiknum gegn Tottenham á sunnudaginn.

Bresku blöðin höfðu það eftir einum leikmanna Chelsea að Poll hefði varið það að hafa gefið sex leikmönnum Chelsea gult spjald - og John Terry rautt - með því að segja að "hann þyrfti að kenna liði Chelsea lexíu vegna agavandamála þeirra."

Keith Hackett hefur nú komið Graham Poll til varnar og segir ekkert til í þessu, enda hafi hann aðgang að hljóðupptökum úr leiknum þar sem öll samskipti dómaranna í gegn um hljóðnema séu tekin upp.

"Ég hef ákveðnar efasemdir um að einn af okkar bestu dómurum og einn af bestu dómurum í heiminum láti svona nokkuð út úr sér, enda hef ég ekki orðið var við neitt slíkt þegar ég hlusta á upptökur frá leiknum," sagði Hackett. "Svona ásakanir draga orðspor dómara okkar í efa og því verðum við að rannsaka málið frekar."

Chelsea-menn eru enn afar ósáttir við tapið gegn Tottenham um helgina, eru ósáttir við dómgæsluna og þá hefur John Terry haldið því fram að Poll dómari hafi gefið sér tvær mismunandi ástæður fyrir því að reka sig af velli og hvorug þeirra virki trúverðug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×