Viðskipti innlent

Marel tapaði 61 milljón króna

Hörður Arnarson, forstjóri Marel.
Hörður Arnarson, forstjóri Marel. Mynd/E.Ól.

Marel skilaði 674.000 evra tapi á þriðja fjórðungi ársins. Þetta svarar til 61 milljónar krónu taps samanborið við 1,2 milljóna evru eða ríflega 104 milljóna króna tapreksturs á sama tíma fyrir ári.

Í tilkynningu frá Marel til Kauphallar Íslands kemur fram að sala á fjórðungnum hafi aukist um 90 prósent á milli ára. Hún nam 57,6 milljónum evra eða 5,2 milljörðum íslenskra króna á tímabilinu samanborið við 30,4 milljónir evra eða 2,4 milljarða íslenskra króna fyrir ári.

Frá þriðja ársfjórðungi 2005 hafa félögin AEW Delford Systems og Scanvægt bæst við annars vegar 7. apríl og hins vegar 4. ágúst.

Rekstrarhagnaður EBIT á þriðja ársfjórðungi var 1,7 milljónir evra eða 152 milljónir íslenskra króna sem er 2,9 prósent af tekjum samanborið við 2,1 milljón evrur eða 165 milljónir króna í fyrra. Á tímabilinu lætur nærri að gjaldfærður einskiptiskostnaður vegna kaupa Marel á nýjum félögum nemi um 1,5 milljón evra.

Sala Marel á fyrstu níu mánuðum ársins nam 136,8 milljónum evra eða 11,9 milljörðum íslenskra króna samanborið við 94,3 milljónir eða 7,5 milljarðar krónur á sama tíma í fyrra. Aukningin nemur 45 prósentum á milli ára.

Fjármagnsgjöld voru um 3,8 milljónir evra samanborið við 2,0 milljónir evra árið áður. Hækkun stafar einkum af aukinni starfsemi vegna ytri vaxtar tengdum kaupum á AEW Delford Systems og Scanvægt. Tap af hlutdeildarfélagi má rekja til verðlækkunar á hlutabréfum í hollenska fyrirtækinu Stork NV en þau eru færð á markaðsvirði.

Handbært fé í lok tímabilsins nam 63,9 milljónum evra og eiginfjárhlutfall var 39,4 prósent.

Tilkynning Marel






Fleiri fréttir

Sjá meira


×