Innlent

Viðvarandi halli á rekstri Ísafjarðarbæjar

Ísafjörður
Ísafjörður MYND/Vísir

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga telur það óviðunandi að viðvarandi halli hafi verið á rekstri Ísafjarðarbæjar frá árinu 2002. Fréttavefurinn Bæjarins besta greinir frá þessu en það segir jafnframt að rekstrarniðurstaðan fyrir árið 2005 hafi verið betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. 

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2006 er gert ráð fyrir áframhaldandi halla. Bréf frá eftirlitsnefndinni var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Ísafjarðar í gær. Nefndin óskar þar eftir því að bæjaryfirvöld geri grein fyrir, til hvaða aðgerða þau ætli að grípa, til að stöðva hallarekstur sveitarsjóðsins. Bæjarins besta birtir hluta af bréfinu en þar óskar nefndin meðal annars eftir upplýsingum um framtíðarhorfur í rekstri sveitarfélagsins.

Í bréfinu segir jafnframt: „Að mati nefndarinnar er það einnig verulegt áhyggjuefni að skv. greinargerð sveitarstjórnar sem byggð er á úrdrætti úr endurskoðunarbók, vantar verulega upp á að veltufé frá rekstri standi undir greiðslubyrði langtímalána og ef lækkun handbærs fjár á árinu 2006 verður með svipuðum hætti og árið 2005 verður ekkert handbært fé eftir í árslok 2006."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×