Erlent

Ríkisstjórnir heims axli meiri ábyrgð

Aðstæður sem enginn vill lenda í Auðvelt er að verða sér úti um vopn af ýmsu tagi víða í heiminum og freistandi fyrir marga þá er minna mega sín að brúka þau til glæpa.
Aðstæður sem enginn vill lenda í Auðvelt er að verða sér úti um vopn af ýmsu tagi víða í heiminum og freistandi fyrir marga þá er minna mega sín að brúka þau til glæpa. MYND/nordicphotos/afp

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti á mánudag ríkisstjórnir heims til að gæta vopnabúra sinna betur og setja aukinn kraft í að eyða ólöglegum vopnum. Á alþjóðlegri ráðstefnu um ólöglega vopnasölu sem nú stendur yfir sagði Annan vopnasmyglara, þjófa og spillta embættismenn höfuðandstæðinga þeirra sem vilja koma böndum á ólöglega vopnasölu í heiminum, en þó mættu ríkisstjórnir heimsins leggja mun meira af mörkum til að sporna við henni.

Á ráðstefnunni er rætt um að breyta fyrirkomulagi sölu léttra vopna í heiminum þannig að ríkisstjórnir axli að einhverju leyti ábyrgð vegna þeirra vopna sem þær selja, en slík ákvæði eru í gildi um sölu gjöreyðingarvopna. Nokkrar ríkisstjórnir hafa þegar lýst sig andsnúnar þessari hugmynd.

Létt vopn eins og rifflar verða um þúsund manns að bana daglega og samkvæmt nýrri könnun hefur einn af hverjum þremur annað hvort lent í vopnuðu ráni eða þekkir einhvern sem lent hefur í slíku. Vel yfir 60 prósent aðspurðra óttast að lenda í svipuðum aðstæðum.

Könnunin var gerð í sex löndum. Að meðaltali töldu 62 prósent aðspurðra það of auðvelt að verða sér úti um skotvopn í heimalöndum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×