Erlent

Ísraels­her hverfur frá Netzarim en fram­haldið ó­ljóst

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þúsundir hafa snúið aftur til norðurhluta Gasa eftir að samdist um vopnahlé. Framhaldið er hins vegar afar óljóst.
Þúsundir hafa snúið aftur til norðurhluta Gasa eftir að samdist um vopnahlé. Framhaldið er hins vegar afar óljóst. Getty/Anadolu/Ali Jadallah

Ísraelsher hefur dregið sig frá Netzarim-mörkunum, sex kílómetra línu sem herinn dró til að skipta Gasa upp í tvo hluta. Um er að ræða þátt í vopnahléssamkomulaginu við Hamas.

Eftir að samið var um vopnahlé hófu Ísraelsmenn að leyfa íbúum Gasa að snúa aftur norður yfir Netzarim-mörkin. Talsmaður Hamas segir brotthvarf hersins frá mörkunum til marks um að Ísrael hafi ekki náð fram sínum ítrustu markmiðum.

Stjórnvöld í Ísrael hafa hins vegar ítrekað að herinn muni ekki hverfa alfarið frá svæðinu fyrr en Hamas-samtökunum hafi verið útrýmt. Hamas hafa sagt á móti að þau muni ekki láta alla gísla lausa fyrr en herinn er horfinn á braut.

Enn hefur ekki náðst saman um annan fasa vopnahlésins, sem snýr einmitt að lausn allra gísla gegn brotthvarfi Ísraelshers frá Gasa.

Yfirlýsingar Donald Trump Bandaríkjaforseta í síðustu viku, um að Bandaríkjamenn taki Gasa yfir og geri svæðið að einhvers konar ferðamannaparadís, hafa bætt á óvissuna um framhaldið. 

Boðað hefur verið til neyðarráðstefnu Arabaríkja 27. febrúar næstkomandi, vegna tillagna hans um að Egyptaland, Jórdanía og önnur Arabaríki taki við Palestínumönnum frá Gasa.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sagði í samtali við Fox News á laugardag að hugmynd Trump væru fyrsta „ferska hugmyndin“ sem lögð hefði verið fram í langan tíma og að hún gæti mögulega „breytt öllu“ á Gasa.

Trump hefur útilokað að senda hermenn á svæðið en Netanyahu segir Ísraelsher myndu „ganga í verkið“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×