Innlent

Stærsta mál Íslandssögunnar

Verjendur í héraðsdómi Jakob R. Möller og Gestur Jónsson, verjendur Tryggva og Jóns Ásgeirs, við fyrirtöku málsins í gær.
Verjendur í héraðsdómi Jakob R. Möller og Gestur Jónsson, verjendur Tryggva og Jóns Ásgeirs, við fyrirtöku málsins í gær.

Mál ákæruvaldsins gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, Tryggva Jónssyni og Jóni Gerald Sullenberger var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Þar var ákveðið að aðalmeðferð málsins hefjist þann 12. febrúar á næsta ári en þó með þeim fyrirvara að dómur Hæstaréttar liggi fyrir í fyrri hluta Baugsmálsins, eða þeim ákæruliðum sem var ekki vísað frá dómi í fyrra. Það mál verður flutt fyrir Hæstarétti 15. janúar næstkomandi og er reiknað með að dómur falli í síðasta lagi í byrjun febrúar.

Arngrímur Ísberg, dómari málsins, sagði það ljóst að aðalmeðferð þessa máls muni krefjast meiri tíma og undirbúnings en nokkuð annað mál sem komið hafi fram hér á landi.

Ríkissaksóknari hefur lagt fram vitnalista með 82 nöfnum sem hann hyggst yfirheyra auk þess sem verjendur sakborninganna ætla að kalla til að minnsta kosti tíu vitni til viðbótar. Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, sagðist halda að það myndi taka hann tvo til þrjá daga að yfirheyra Jón Ásgeir og að minnsta kosti einn dag að yfirheyra hvorn hinna sakborninganna. Því er reiknað með að vitnaleiðslur og munnlegur málflutningur taki allt að fimm vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×