Innlent

Grundvöllur að sókn skólans í fremstu röð

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sagði við útskrift 380 kandídata í dag að vísindasamstarf kennara og vísindamanna í öllum deildum og stofnunum skólans við erlenda skóla og vísindamenn í fremstu röð væri fjársjóður sem skólinn myndi grundvalla á sókn sína á næstu árum. Innan Háskólans eru vísindamenn í samstarfi um á annað hundrað alþjóðleg verkefni með mörgum af fremstu háskóla- og vísindastofnunum í heiminum.

Alþjóðlegt vísindasamstarf Háskólans fer að langmestu leyti fram í tengslum við rannsóknartengt framhaldsnám sem skólinn leggur áherslu á að byggja upp af miklum metnaði. Kristín Ingólfsdóttir sagði í dag, að uppbygging og þróun samfélags sem bæði vildi komast í fremstu röð og halda þar stöðu sinni, væri háð því að Háskóli Íslands byggði hér upp öflugt rannsóknartengt framhaldsnám. Hún rakti síðan nokkur af mikilvægum samstarfsverkefnum Háskólans við erlendar vísindastofnanir og heimsþekkta vísindamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×