Innlent

Kröfur allt að 50 milljónir króna á hendur ríkinu

Fyrrverandi ráðuneytisstjóri í viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu krefur ríkið um rúmlega fimmtíu milljónir króna vegna meintrar ólögmætrar framgöngu ráðherra í hans garð, en ráðuneytisstjórinn hefur ekki fengið að snúa aftur til starfs síns í áratug. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Björn Friðfinnsson var ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu á árunum 1989 til 1993. Hann tók sér þá leyfi frá störfum á meðan hann gengdi starfi hjá EFTA í þrjú ár en þegar hann hugðist snúa aftur til síns fyrra starfs hafnaði Finnur Ingólfsson, þáverandi viðskipta- og iðnðarráðherra því. Til stóð að hann sneri aftur til starfa um síðustu áramót en þá var Kristján Skarphéðinsson skipaður í embættið.

Þessa ákvörðun telur Björn brot á stjórnsýslulögum og hefur stefnt Valgerðir Sverisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hann krefur ríkið um fimm milljónir króna í miskabætur og að viðurkennt verði að hann geti snúið aftur í starf ráðuneytisstjóra. Til vara krefst hann þess að hann fái greidd full laun ráðuneytisstjóra til 70 ára aldurs og miskabóta að upphæð um 17,5 milljónir króna. Verði dómurinn við varakröfunni gæti hún numið um 52 milljónum króna.

Málið var þingfest í héraðsdómi í morgun og því síðan frestað til 27. apríl en þann tíma hafa lögmenn beggja aðila til að leggja fram greinargerð í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×