Innlent

Samfylkingin vill meira fé í velferðarkerfið

Það er ömurlegt að aldraðir og öryrkjar búi ekki við sómasamleg lífskjör á sama tíma og ríkissjóður hefur aldrei tekið til sín stærri hluta af þjóðarkökunni, segir formaður Samfylkingarinnar en Íslendingar eiga heimsmet í aukningu á skattbyrði, samkvæmt úttekt OECD.

Skattbyrðin jókst um 3,7 prósentustig á síðasta ári og skilaði ríkissjóði 37 milljörðum. Fjármálaráðherra segir auknar tekjur hafi skilað sér í aukinni velferðarþjónustu en Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands sagði í fréttum í gær að velferðarkerfið hefði aðeins fengið um þriðjung af þessum auknu tekjum.

Við rekum ekki norrænt velferðarkerfi með amerískum skatthlutföllum, sagði Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna í samtali við NFS í dag, og gagnrýnir því ekki skatthlutfallið, heldur hitt hvernig skattbyrðin hefur flust til frá hátekjumönnum og stóreignafólki yfir á almennt launafólk.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingar segir nú óyggjandi staðreyndir liggja á borðinu um að ríkisstjórnin hafi aldrei tekið til sín stærri hluta af þjóðarkökunni. Hún segir skatthlutfallið í sjálfu sér svipað og í nágrannalöndunum, spurningin sé hvernig fénu sé varið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×