Erlent

Mikilvægasta verkefni Nató

Jaap de hoop scheffer og hamid karzai Framkvæmdastjóri Nató og forseti Afganistans héldu sameiginlegan blaðamannafund í Kabúl, höfuðborg Afganistans, í gær.
Jaap de hoop scheffer og hamid karzai Framkvæmdastjóri Nató og forseti Afganistans héldu sameiginlegan blaðamannafund í Kabúl, höfuðborg Afganistans, í gær. MYND/AP

Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir að mikilvægasta verkefni bandalagsins núna sé að að vinna að uppbyggingu og að tryggja stöðugleika í Afganistan.

„Við höfum ekki efni á því að mistakast,“ sagði hann á sameiginlegum blaðamannafundi með Hamid Karzai, forseta Afganistans, í Kabúl í gær. Hann brá sér í tveggja daga heimsókn til Afganistans, en ástandið þar hefur hríðversnað síðustu vikurnar.

Meira en 800 manns hafa látið lífið í átökum frá því í maí. Hörðust hafa átökin verið í suðurhluta landsins, þar sem talibanasveitirnar eru öflugastar.

Nató er að efla til muna herstyrk sinn í Afganistan með því að senda fleiri hermenn þangað frá Bretlandi, Kanada og Hollandi. Bandaríkin eru með um 21 þúsund hermenn í Afganistan, en í nóvember er búist við því að hermenn á vegum Nató verði orðnir jafn margir og bandarísku hermennirnir.

Í gær voru enn fremur birtar niðurstöður úr rannsókn afganskra stjórnvalda á loftárás, sem hersveitir bandamanna gerðu á héraðið Uruzgan í suðurhluta Afganistans hinn 10. júní síðastliðinn. Rannsóknin leiddi í ljós að árásirnar hefðu kostað tíu óbreytta borgara lífið og 27 særst að auki.

„Við reynum virkilega að koma í veg fyrir manntjón óbreyttra borgara,“ sagði Tom Collins, talsmaður alþjóðaherliðsins, sem Bandaríkjamenn eru í forystu fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×