Erlent

Finnar dæma norsk- rúss­neskan ný­nasista fyrir stríðs­glæpi í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vaislav Torden eða Jan Petrovskij barðist sem málaliði bæði í Úkraínu og í Sýrlandi.
Vaislav Torden eða Jan Petrovskij barðist sem málaliði bæði í Úkraínu og í Sýrlandi. AP/Markku Ulander

Héraðsdómur Helsinki dæmdi í morgun Vaislav Torden í lífstíðarfangelsi fyrir stríðsglæpi í Úkraínu. Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi vegna brota sem hann framdi þegar hann barðist í austurhluta Úkraínu 2014 og 2015.

Torden, fæddur 1987, er hálfur Rússi og hálfur Norðmaður og yfirlýstur ný-nasisti, samkvæmt frétt NRK. Hann barðist á árum áður með alræmdum hópi sem kallast „Rusich“ og barðist með aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu. Torden er talinn hafa verið einn af leiðtogum Rusich.

Torden, sem gengur einnig undir nafninu Jan Petrovskij, bjó í Noregi milli 2004 til 2016 en var vísað úr landi þar sem hann var talinn ógna þjóðaröryggi Noregs.

Eftir að hann barðist í Úkraínu fór Torden til Sýrlands þar sem hann gekk undir nafninu „Norðmaður“, eins og NRK hefur fjallað ítarlega um áður.

Birti mynd af sér með logandi líki

Hann var sakfelldur í fjórum ákæruliðum fyrir stríðsglæpi og dæmdur í lífstíðarfangelsi. Það þýðir að hann geti sóst eftir reynslulausn eftir tólf ára fangelsisvist. Hann var ákærður í fimm liðum en einn þeirra var felldur niður af dómstólnum.

Samkvæmt ríkisútvarpi Finnlands (YLE) var Torden dæmdur fyrir aðkomu sína að árásum á úkraínska hermenn í Luhansk í Úkraínu þann 5. september 2014. Hann er sagður hafa banað að minnsta kosti einum hermanni, tekið myndir af líkinu og birt á samfélagsmiðlum, með skilaboðum um að meðlimir Rusich myndu ekki sýna neina miskunn.

Eftir að Rússar sendu hermenn til Krímskaga og hernámu landsvæðið studdu þeir við bakið á aðskilnaðarsinnum í Dónetsk og Lúhansk í austurhluta Úkraínu. Sá stuðningur var í formi hergagna, fjármagns og manna, svo eitthvað sé nefnt. Rússneski herinn aðstoðaði aðskilnaðarsinnana með beinum hætti.

Ákæran sem felld var niður sneri að því að Torden, sem var næstráðandi í Rusich, bæri ábyrgð á umsátri sem úkraínsku hermennirnir voru felldir í en fleiri hópar en Rusich tóku þátt í því.

Umsátrið fór þannig fram að málaliðarnir og hinar sveitirnar sem börðust með aðskilnaðarsinnunum höfðu dregið úkraínska fánann að húni í varðstöð sem þeir héldu og þegar úkraínska hermenn bar að garði sátu þeir fyrir þeim.

Torden var handtekinn í Finnlandi árið 2023 og var upprunalega sakaður um að brjóta innflytjendalög. Yfirvöld í Úkraínu höfðu farið fram á að Torden yrði framseldur en því höfnuðu Finnar.

Ætlar að áfrýja

YLE hefur eftir lögmanni Tordens að hann muni áfrýja dómnum, sem hafi komið málaliðanum fyrrverandi í opna skjöldu. Hann hefði ekki banað særðum úkraínskum hermönnum og ekki gefið skipun um að slíkt yrði gert.

Lögmaðurinn segir Torden vera fórnarlamb pólitískra ofsókna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×