Viðskipti innlent

Hagnaður jókst á milli ára

Hagnaður eignarleigufyrirtækisins SP-Fjármögnunar hf., dótturfélags Landsbankans og sparisjóða, nam 245 milljónum króna á fyrri helmingi ársins. Afkoman er 57 milljónum krónum eða 30,7 prósentum betri en ásama tíma fyrir ári.

Rekstur SP-Fjármögnunar er í samræmi við áætlanir, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hreinar tekjur voru 656 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins en það er 38 prósenta aukning frá fyrri hluta árs 2005.

Efnahagreikningur félagsins hefur stækkað um tæp 50 prósent á árinu og er nú 33,5 milljarðar króna en var um áramót 22,4 milljarðar króna.

Þá var eigið fé SP-Fjármögnunar rúmir 2,7 milljarðar króna í lok júní.

Eiginfjárhlutfall félagsins ,sem reiknað er samkvæmt 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki (CAD hlutfall) er 12,2 prósent en má skv. lögum ekki vera lægra en 8 prósent.

Í tilkynningunni kemur fram að vanskil voru í lágmarki. Þau námu 0,9 prósentum af heildarútlánum í júnílok og höfðu lækkað úr 1,1 prósenti frá ársbyrjun. Á sama tíma í fyrra námu vanskil um 1,2 prósentum af heildarútlánum.

Heildarvanskil voru í júnílok um 287 milljónir króna en á sama tíma í fyrra nam virðisrýrnunarreikningur útlána og eignaleigusamninga hins vegar tæpum 2,5 prósentum af heildarútlánum eða 807 milljónum króna.

Afkoma SP-Fjármögnunar hf. er í samræmi við áætlanir og eru horfur góðar með árið í heild sinni, að því er fram kemur í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×