Viðskipti innlent

Velta umfram væntingar

Álverið við grundartanga Velta í hagkerfinu jókst að hluta vegna uppbyggingar í stóriðju og stækkunar á verksmiðju Norðuráls á Grundartanga í maí og júní.
Álverið við grundartanga Velta í hagkerfinu jókst að hluta vegna uppbyggingar í stóriðju og stækkunar á verksmiðju Norðuráls á Grundartanga í maí og júní. MYND/Eiríkur

Velta í hagkerfinu jókst um 22,4 % að nafnvirði í maí- og júní miðað við sama tíma í fyrra. Greiningardeild Glitnis segir neyslu- og fjárfestingatengdar atvinnugreinar hafa drifið hagkerfið áfram á tímabilinu og komi það ekki á óvart.

Vöxtur var mikill í fjárfestingatengdum atvinnugreinum á þessum tveimur mánuðum en hann tengist að stórum hluta uppbyggingu í stóriðju. Velta jókst um 54% í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð en um 37%í framleiðslu málma en það skýrist af stækkun á verksmiðjunni á Grundartanga og háu álverði.

Þá jókst áfram velta í greinum sem tengjast einkaneyslu. Velta í bílasölu jókst um 12% en í smásölu um 11% auk þess sem vöxtur var mikill í hótel- og veitingahúsarekstri eða 19%. Styður það upplýsingar um aukin umsvif í ferðaþjónustu í sumar.

Veltuaukningin á tímabilinu nam í heildina 22,4% og er það nokkuð meira en búast mátti við í ljósi talna um hagvöxt á öðrum fjórðungi ársins. Greiningardeildin setur þann fyrirvara að stór hluti veltuaukningarinnar er í innflutningi og kemur það til frádráttar í útreikningi á landsframleiðslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×