Innlent

Sló og sparkaði í andlit pilts

Borgarnes Ofbeldisverkin áttu sér stað fyrir utan Búðarklett í Borgarnesi.
Borgarnes Ofbeldisverkin áttu sér stað fyrir utan Búðarklett í Borgarnesi.

Tveir menn hafa verið dæmdir í Héraðsdómi Vesturlands fyrir fíkniefnabrot og ofbeldisverk. Annar var dæmdur í fangelsi, hinn í sekt.

Annar mannanna réðst að manni aðfaranótt sunnudagsins 17. apríl 2005 fyrir utan Búðarklett í Borgarnesi. Fórnarlambið marðist mikið í andliti og fékk skurð á vinstra kinnbein. Sömu nótt réðust báðir sakborningarnir á annan pilt á sama stað. Annar þeirra sló hann í jörðina, en hinn sló og sparkaði í andlit honum þar sem hann lá. Pilturinn missti við þetta tvær tennur úr efri gómi.

Auk þessa var öðrum hinna dæmdu gefið að sök að hafa gert tilraun til fíkniefnabrots meðan hann sat í fangelsinu á Akureyri, en þá reyndi hann að smygla kókaíni inn í fangelsið.

Annar mannanna var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi. Honum var gert að greiða þeim sem tennurnar missti 135 þúsund krónur, svo og sakarkostnað. Hinn var dæmdur í 50 þúsund króna sekt eða fjögurra daga fangelsi, greiði hann hana ekki innan tilskilins tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×