Innlent

Misneyting ekki sögð fela í sér ofbeldi

Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður telur varhugavert að færa kynferðislega misneytingu og nauðgun undir sömu lagagrein, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpsdrögum dómsmálaráðherra. Hann telur misneytingu ekki fela í sér ofbeldi. Framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins vill skjótvirkari úrræði gagnvart þeim sem beita heimilisfólk sitt ofbeldi.

Dómsmálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun drög að frumvarpi til laga um meðferð sakamála. Þar er meðal annars gert ráð fyrir að ákæruvaldið verði þrískipt, það er að viðbætist yfirsaksóknari sem gæfi út ákærur í ákveðnum. Einnig er í drögunum hugtakið nauðgun víkkað út. Í hegningarlögum í dag er kveðið á um nauðgun annars vegar og hins vegar misneytingu eins og sjá má hér, en ef frumvarpið verður að lögum verður ekki gerður greinarmunur þarna á.

Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður hefur efasemdir um þetta. Hann telur ekki rétt að skilgreina það að gerandi nýti sér ástand fórnarlambsins og komi fram vilja sínum sem ofbeldi.

Samkvæmt drögunum verður ekki lengur refsivert að hafa framfæri sitt af vændi, en refsivert verður að bjóða fram, miðla eða óska eftir kynmökum í opinberri auglýsingu. Þá stendur til að setja nálgunarbann undir sérlög, en ekki er verið að gera sérstakar breytingar á gildandi lögum að því að séð verður. Ýmsir hafa bent á að þungt geti verið í vöfum að fá nálgunarbann og vill til dæmis framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins fara svokallaða austurrísku leið hvað varðar heimilisofbeldi, það er að lögreglu verði heimilt að fjarlægja ofbeldismann af heimili um hríð á meðan svigrúm gefst til að fá sett nálgunarbann á viðkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×