Innlent

Sagnfræðingar furða sig á takmörkunum á aðgangi að gögnum

Þjóðskjalasafn Íslands
Þjóðskjalasafn Íslands MYND/GVA

Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands furðar sig á þeim takmörkunum sem eru á aðgangi að gögnum um símhleranir í vörslu Þjóðskjalasafns Íslands. Takmarkanirnar séu nýr tónn, og það sé áhyggjuefni.

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur upplýsti fyrr á árinu að símar fjölda manna, þar á meðal alþingismanna, voru hleraðir í nokkrum tilvikum á kaldastríðsárunum. Margir telja svo gott sem augljóst að Kjartan Ólafsson, fyrrverandi þingmaður og formaður Sósíalistafélags Íslands, hafi verið einn þeirra sem varð fyrir þessum hlerunum. Þjóðskjalasafn Íslands hefur neitað Kjartani um sama aðgang að gögnum stjórnvalda um málið og Guðni fékk við rannsóknir sínar.

Á fundi Sagnfræðingafélags Íslands í dag var meðal annars rætt um þessar takmarkanir safnsins að umræddum gögnum. Í ályktun stjórnarinnar segist hún furða sig á takmörkununum. Sjálfsagt sé að ákveðnar reglur gildi um aðgang að skjölum af þessu tagi, en afar varhugavert sé að þær hömlur vegi þyngra en réttur til rannsókna á liðinni tíð, að teknu tilliti til sjálfsagðra ákvæða um persónuvernd.

Einn stjórnarmanna félagsins, Súsanna Margrét Gestsdóttir, segir sagnfræðinga hafa haft góðan aðgang að gögnum Þjóðskjalasafnins til þess og því erfitt að segja hvort þörf sé á að breyta reglum um aðgang að skjölum og upplýsingum sem þar eru eru geymd, í ljósi þessa máls. Henni skilst þó að verið sé að vinna að heildstæðum reglum um þessi mál í dómsmálaráðuneytinu. Takmörkun Kjartans að gögnum safnsins séu hins vegar nýr tónn hvað þetta varðar, og það sé vissulega áhyggjuefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×