Innlent

Ekki borga allir jafn mikið fyrir löggæslu

Lögreglumenn á vakt Í Neskaupstað greiða aðstandendur hátíðarinnar allan kostnað umfram þá tvo lögreglumenn sem verða á vakt en á Akureyri rukkar lögregluembættið einungis fyrir sérstaka vakt, eins og á tjaldstæðum.
Lögreglumenn á vakt Í Neskaupstað greiða aðstandendur hátíðarinnar allan kostnað umfram þá tvo lögreglumenn sem verða á vakt en á Akureyri rukkar lögregluembættið einungis fyrir sérstaka vakt, eins og á tjaldstæðum.

Aðstandendur hátíða um verslunarmannahelgi þurfa að taka mismikinn þátt í kostnaði vegna löggæslu. Gert er ráð fyrir að allur kostnaður umfram venjuleg löggæslustörf falli á þann sem fyrir hátíðinni stendur.

„Við höfum ekki talið okkur geta rukkað þá sem um hátíðina sjá sérstaklega fyrir almenna löggæslu í bænum,“ segir Björn Jósef Arnviðarson, lögreglustjóri á Akureyri. „Aftur á móti hefur bærinn keypt af okkur aukalöggæslu á tjaldsvæðum og þess háttar, bæði um verslunarmannahelgar og aðrar helgar.“ Allir tiltækir lögreglumenn verða á vakt á Akureyri ásamt afleysingamönnum og sérfræðingum annars staðar frá.

Björn Þór Rögnvaldsson, fulltrúi sýslumannsins á Eskifirði, segir að margir lögreglumenn verði kallaðir á vakt í Neskaupstað um verslunarmannahelgina í tilefni af Neistaflugi. „Hátíðahaldarar borga alveg þennan auka löggæslukostnað en venjulega eru tveir lögreglumenn á vakt á staðnum,“ segir Björn Þór.

Í fyrra var samið við aðstandendur þjóðhátíðar í Eyjum um að þeir borguðu allan kostnað við löggæslu í Herjólfsdal. Að sögn Karls Gauta Hjaltasonar, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum, stendur það samkomulag enn, en lögreglan mun greiða þann kostnað fyrir gæslu inni í bænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×