Innlent

Miðar fara í almenna sölu

Sufjan Stevens Mikil eftirvænting er eftir komu hins virta tónlistarmanns til landsins.
Sufjan Stevens Mikil eftirvænting er eftir komu hins virta tónlistarmanns til landsins.

Þeir sem kaupa miða á tónleika Morrisseys næstkomandi laugardag í Laugardalshöll munu hafa forkaupsrétt á miðum á tvenna tónleika Sufjans Stevens í Fríkirkjunni í nóvember. Forsalan mun standa til 14. ágúst, en þá verður opnað fyrir almenna sölu.

Haft var samband við talsmann neytenda í gær vegna málsins og taldi viðkomandi að borin von væri fyrir þá sem ekki eiga miða á Morrissey að kaupa miða á Sufjan, enda hafi þeir rúmlega tvö þúsund sem keypt hafa miða á Morrissey forkaupsrétt á þeim 840 miðum sem alls eru í boði á tvenna tónleika Sufjans Stevens.

Talsmaður neytenda tók ekki afstöðu til þessa máls sérstaklega, en sagðist alltaf vera á varðbergi gagnvart mismunun á neytendum og hindrun á frjálsu vali þeirra.

Grímur Atlason tónleikahaldari segir að séð verði til þess að einhverjir miðar fari í almenna sölu og forsalan verði blásin af áður en allir miðar seljast.

„Ég mun ekki selja allt upp í forsölu,“ segir Grímur „Þetta hefur verið gert oft áður, að tónleikagestir fái forkaupsrétt á miða á aðra tónleika. Það eru rúmlega áttatíu prósent eftir af miðunum, svo fólk þarf ekkert að örvænta. Þó mun líklega seljast upp á tónleikana fljótlega eftir að almenn sala hefst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×