Innlent

Eldsnöggur að hafa sig á brott

Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar var gert viðvart eftir að maður skildi eftir um tuttugu kíló af dínamíti á gámasvæði Sorpstöðvar Selfoss um tvöleytið í gær.

Daníel Karli Sveinbjörnssyni, starfsmanni á gámasvæðinu, var brugðið þegar blaðamaður náði tali af honum. „Ég sagði manninum að bera þetta inn í stöðina sem hann og gerði og svo rauk hann í burtu. Mér brá heldur betur í brún þegar mér var tjáð að sorpstöðin hefði getað sprungið í loft upp ef efnið hefði orðið fyrir hnjaski,“ segir Daníel Karl.

Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar fargaði efninu nokkrum klukkustundum síðar. Lögregla telur ekki ástæðu til að reyna að hafa uppi á manninum, en hvetur þá sem hyggjast losa sig við sprengiefni að hafa samband við lögreglu áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×