Innlent

Ferðast tæpa nítján hundruð kílómetra

Hljómsveitir landsins verða margar hverjar á faraldsfæti um helgina til að standa við samninga. Margar þeirra hafa bókað sig á tvær eða fleiri útihátíðir um verslunarmannahelgina. Sömu sögu má segja um einstaka skemmtikrafta. Þá þarf plötusnúðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson að ferðast tæpa nítján hundruð kílómetra til að standa við samninga.

Páll Óskar er bókaður sem plötusnúður á þremur útihátíðum um helgina. Hann þeytir skífum á Neistaflugi í Neskaupstað á föstudagskvöldið, hann heiðrar Akureyringa með nærveru sinni á laugardagskvöldið og á sunnudagskvöldið spilar hann á Síldarævintýrinu á Siglufirði.

„Þetta er eins og að vera á vertíð. Ef maður passar sig, borðar rétt og sefur vel þá er þetta svolítið eins og að vera úti á sjó,“ segir Páll Óskar og hlær. „Ég geri lítið annað þessa helgi en að spila og sofa.“ Páll flýgur frá Egilsstöðum til Reykjavíkur svo hann geti flogið þaðan til Akureyrar. „Það er mikið betra en að hanga í bíl,“ segir Páll Óskar. Hann er einn á ferð um helgina.

Hljómsveitin Skítamórall verður einnig á faraldsfæti um verslunarmannahelgina. Meðlimir sveitarinnar eru bókaðir á bindindismótið í Galtalæk á föstudagskvöldinu, á Neistaflug í Neskaupsstað á laugardagskvöldinu og á sunnudagskvöldið verða þeir á Akureyri. Þeir keyra hringinn í kringum landið til að ná á tónleikastaðina, eða um fjórtán hundruð kílómetra. „Þetta er alltaf jafn gaman,“ segir Arngrímur Fannar Haraldsson, bassaleikari Skíta­mórals. „Það fer vel um okkur í rútunni. En auðvitað getur þetta verið lýjandi, þetta er samt örugglega mikið betra en að vera á sjó, sumir myndu örugglega segja að það væri lýjandi.“

Stuðmenn spila á þremur stöðum um helgina. Hljómsveitin spilar í Vestmannaeyjum á föstudagskvöldinu, í Húsdýragarðinum í Reykjavík á laugardaginn og á sunnudagskvöldinu treður hljómsveitin upp á bindindismótinu í Galtalæk. Hljómsveitin þarf því að ferðast um 458 kílómetra fyrir tónleikahaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×