Innlent

Neituðu að greiða atkvæði

Júlíus Vífill Ingvarsson
Júlíus Vífill Ingvarsson

Skipting menntaráðs Reykjavíkurborgar í tvennt með stofnun leikskólaráðs var afgreidd af fundi menntaráðs í gær. Minnihluti Samfylkingar og Vinstri grænna sat hjá við afgreiðsluna.

Stefán Jón Hafstein, fulltrúi Samfylkingar, segir fundarboðið hafa komið á óvart, enda hafi ekki staðið til að afgreiða málið fyrr en í haust. „Það var ekki tekið fram að málið væri til afgreiðslu á fundinum, enda mjög viðamikið. Samfylkingin og VG óskuðu eftir að ráðið fengi skriflegar umsagnir fagstétta grunn- og leikskóla. Við neituðum að greiða atkvæði enda skorti gögn sem hafði verið beðið um.“ segir Stefán Jón.

Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður menntaráðs, segir nauðsynlegt að vinna þessar breytingar hratt og vandlega.

„Stjórnkerfisnefnd óskaði eftir því við menntaráð að það veitti umsögn um þetta mál og það var enginn óeðlilegur hraði í því,“ segir Júlíus Vífill. „Að drepa þetta mál niður mundi halda þeim sem vinna í þessum málaflokkum í mikilli óvissu. Þessar tillögur byggja fyrst og fremst á samráði við fagfólk.“

„Ég er viss um að Stefán Jón mundi ekki temja sér þau vinnubrögð sem hann biður okkur um að stunda,“ segir Júlíus Vífill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×