Innlent

Fór af tjaldsvæði um nóttina

Óskað var eftir aðstoð björgunarsveita í gær við leit að 45 ára gömlum karlmanni í Skaftafelli.

Síðast sást til mannsins á tjaldsvæðinu við Skaftafell um eittleytið í fyrrinótt. Hann skilaði sér ekki í tjald sitt og var því farið að grennslast fyrir um manninn.

Á milli tuttugu og þrjátíu björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni frá því um eittleytið í gærdag. Leitinni var fyrst beint að svæðunum í kringum tjaldsvæðið en svo var svæðið stækkað út á sandana. Auk björgunarmannanna tók þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, þátt í leitaraðgerðum. Þá voru leitarhundar björgunarmönnum til aðstoðar. Maðurinn hafði ekki fundist þegar blaðið fór í prentun en um 150 björgunarmenn tóku þátt í leitinni í nótt.

Að sögn lögreglunnar á Höfn var maðurinn einn á ferð og tilkynnti hann engum um för sína né ástæður fyrir henni.

Maðurinn heitir Jóhann Konráð Sveinsson og er klæddur í hvíta og bláa strigaskó, bláar gallabuxur og bláan vindjakka með hettu. Hann var með svarta derhúfu þegar síðast sást til hans. Jóhann er 194 sentimetrar á hæð, þéttvaxinn með dökkt stuttklippt hár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×