Viðskipti innlent

DeCode tapar 2,7 milljörðum króna

Kári Stefánsson, forstjóri DeCode
Hlutabréf í deCode hækkuðu á NASDAQ í gærmorgun þrátt fyrir að tilkynnt væri um 2,7 milljarða tap á fyrri helmingi árs.
Kári Stefánsson, forstjóri DeCode Hlutabréf í deCode hækkuðu á NASDAQ í gærmorgun þrátt fyrir að tilkynnt væri um 2,7 milljarða tap á fyrri helmingi árs.

DeCode Genetics tapaði 2,7 milljörðum króna á fyrri helmingi árs samkvæmt nýbirtu uppgjöri félagsins. Tap deCode jókst um tæplega tuttugu og tvö prósent sé miðað við sama tímabil í fyrra.

Tekjur félagsins námu tæpum 1,46 milljörðum króna fyrstu sex mánuði ársins og drógust saman um 35,5 milljónir króna frá því í fyrra. Heildarrekstrarkostnaður var rúmir tveir milljarðar króna og jókst um 667 milljónir frá fyrra ári.

Í tilkynningu frá deCode segir að aukið tap megi rekja til hærri rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Þá kemur fram að í lok júní hafi félagið átt 8,2 milljarða króna í lausafé til rekstrar félagsins. Hlutafjáraukning í deCode, sem fram fór í júlí, skilaði félaginu 19,7 milljörðum króna í lausafé.

Kári Stefánsson, forstjóri deCode, segir í tilkynningunni að félagið sé komið vel á veg í klínískum prófunum á ýmsum lyfjum; sérstaklega gegn astma og hjartasjúkdómum.

Hlutabréf í deCode hækkuðu um rúm tvö prósent á NASDAQ-markaðnum í gærmorgun og stóðu í 4,88 Bandaríkjadölum á hlut síðast þegar fréttist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×