Innlent

Fleiri geðfatlaðir fá að búa einir

Hátún 10 Búsetuúrræði geðfatlaðra munu færast í minni einingar.
Hátún 10 Búsetuúrræði geðfatlaðra munu færast í minni einingar.

Fleiri geðfötluðum verður gert kleift að búa einir innan tíðar, segir Þór Þórarinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu. Breytingarnar koma í kjölfar úttektar sem gerð var á högum einstaklinga sem búa á geðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH). Í henni kom í ljós að 54 einstaklingar sem þar búa gætu búið annars staðar.

Þá verður þjónusta aukin við þá sem nota búsetuúrræði geðfatlaðra.

Í úttekt á búsetuúrræðum geðfatlaðra sem gerð var í fyrra kom í ljós að 54 einstaklingar sem búa á geðdeild LSH gætu notfært sér önnur búsetuúrræði. Þá eru nokkrir tugir til viðbótar í göngudeildarþjónustu á LSH en gætu verið í búsetu fyrir geðfatlaða. Samtals eru þetta 84 manns sem gætu nýtt sér búsetuúrræði fyrir geðfatlaða, að sögn Þórs Þórarinssonar, skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu.

Nú er nefnd að störfum við að kanna uppbyggingu í þágu geðfatlaðra en hún mun skila af sér niðurstöðum í haust og verða fyrstu búsetuúrræðin tilbúin á þessu ári.

Þór segir að andvirði Landsímans, um einn milljarður króna, sem ákveðið var að nota í þennan málaflokk, verði notað í stofnkostnað búsetuúrræðanna. Þá er talið að rekstarkostnaður verði 800 milljónir króna fyrir lok tímabilsins árið 2010 en stjórnvöld hafa ákveðið að tryggja rekstur búsetunnar næstu fimm árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×