Innlent

Brýtur gegn jafnræðisreglu

framkvæmdir impregilo Impregilo telur sig eiga að fá nokkrar milljónir til baka.
framkvæmdir impregilo Impregilo telur sig eiga að fá nokkrar milljónir til baka.

Heilbrigðiseftirlit Austur­lands brýtur gegn jafnræðis­reglu stjórnsýslulaga með því að krefja Impregilo um hærra tímagjald fyrir eftirlit með starfsemi fyrirtækisins, samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar sem starfar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Impregilo sendi kæru til nefndar­innar á þeim grundvelli að fyrirtækinu væri mismunað með ólögmætum hætti með því að vera krafið um 30 prósent hærra tímagjald vegna eftirlits en þorra atvinnurekenda á svæðinu sé gert að greiða fyrir hliðstæða þjónustu.

Þórarinn V. Þórarinsson, lögmaður Impregilo, segir úrskurðinn afgerandi um að þetta hefði verið ólögmæt gjaldtaka og fundað verði með heilbrigðiseftirlitinu á næstunni þar sem reynt verður að ná samkomulagi um hvernig endurgreiðslu verður háttað.

Meðal raka heilbrigðisstofnunarinnar fyrir hækkuninni er að kostnaður við eftirlitið hafi verið mun hærri en numið hafi innheimtum þjónustugjöldum, að sögn Helgu Hreinsdóttir, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Austurlands. „Við höfum ekkert annað í huga en að fara réttar leiðir en erum ósátt við þennan úrskurð. Það er nánast gefið í skyn að íbúar Austurlands eigi að bera 30 prósent af kostnaði við heilbrigðiseftirlit í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×