Innlent

Vilja sækja orkuríkari gufu

Undirbúningur vegna djúpborunar á Kröflusvæðinu stendur nú yfir. Á næstu vikum fer fram útboð á efni til borunarinnar. Samkvæmt Birni Stefánssyni, deildarstjóra virkjanadeildar hjá Landsvirkjun, er vonast til að boranir geti hafist í lok næsta árs eða byrjun ársins 2008. Holan er um fimm kílómetra djúp en hefðbundnar háhitaholur eru milli tveggja og þriggja kílómetra djúpar.

Björn segir hugmyndina vera að sækja orkuríkari gufu sem væri undir meiri þrýstingi og hefði hærra hitastig en finnst í hefðbundnum borholum. „Undirbúningur vegna verkefnisins var hafinn árið 2000. Það er ekki víst að við finnum gufuna, en við vonumst til að það fari að skýrast með árangur um 2010.“

Hann segir umhverfisrask af völdum djúpborunarholu sambærilegt hefðbundnum holum en óvissa felist í því að efnasamsetning gufunnar sé óþekkt. „Við þurfum að vera viðbúnir því að geta dælt vökvanum niður aftur ef hann inniheldur til dæmis mikið af þungmálmum.“

Verkefnið er samvinnuverkefni Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Orkuveitu Suðurnesja og Orkustofnunar fyrir hönd ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×