Innlent

Selja helmingi minna af kjöti

Útflutningur Norðlenska á dilkakjöti til Bandaríkjanna verður helmingi minni í ár en í fyrra vegna aukinnar neyslu innanlands og lágs gengis Bandaríkjadals. Norðlenska er eini aðilinn sem flytur út lambakjöt til Bandaríkjanna og því er fyrirséð að ekki verði hægt að fullnægja eftirspurn þar, en mikið hefur verið lagt í uppbyggingu markaðar­ins undanfarin ár.

„Það má líkja þessu við uppskerubrest, það er minna til útflutnings vegna aukinnar neyslu innanlands og menn eru lengi að auka framleiðsluna,“ segir Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska.

„Landbúnaðar­ráðuneytið ákvað að útflutnings­kvöðin yrði tíu prósent í ár en hún var átján prósent í fyrra, svo við munum flytja alls út um 160 tonn miðað við 370 árið 2005.“ Bændur fá hærra verð fyrir kjöt selt á innanlands­markaði en á útflutningsmarkaði.

Meiri áhersla verður lögð á útflutning á markaði Norðlenska í Færeyjum og Bretlandi, sem eru hagstæðari en Bandaríkjamarkaður vegna lágs gengis Bandaríkjadals. „Við töpuðum á útflutningi til Bandaríkjanna í fyrra en högnuðumst í hitteðfyrra þegar dollarinn var sterkari. Eins og ástandið er núna jafngildir þetta því að þessi viðskipti við Bandaríkjamarkað væru á fjörutíu prósenta afslætti,“ segir Sigmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×