Innlent

Þrjú áföll á skömmum tíma

Skinney-Þinganes hefur fest kaup á þessu skipi og Bjarna Sveinssyni auk veiðiheimilda.
Skinney-Þinganes hefur fest kaup á þessu skipi og Bjarna Sveinssyni auk veiðiheimilda.

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis, segir það vera áfall fyrir atvinnulífið á Húsavík að Skinney-Þinganes hf. hafi keypt kvóta og skip útgerðarfélagsins Langaness hf. á Húsavík.

Skinney-Þinganes gekk á þriðjudaginn frá kaupum á skipunum Björgu Jónsdóttur og Bjarna Sveinssyni, auk veiðiheimilda. Þetta er slæmt mál fyrir byggðina, þar sem þetta er þriðja áfallið sem verður í héraðinu á skömmum tíma. Kísiliðjan lokaði fyrir skömmu, rækjuverksmiðjan hætti og svo koma þessi viðskipti núna, sem eru ekki héraðinu í hag, sagði Aðalsteinn Árni.

Ekki stendur til að segja áhöfninni á Björgu Jónsdóttur upp störfum, samkvæmt upplýsingum frá Skinney-Þinganesi. Hún verður áfram á skipinu þó Skinney-Þinganes hafi höfuðstöðvar á Höfn í Hornafirði. Björg Jónsdóttir er útbúið til veiða á uppsjávarfiski en engar veiðiheimildir hafa verið skráðar á Bjarna Sveinsson um nokkurt skeið. Síldarvinnslan, sem átti næstum 40 prósent í Langanesi hf., seldi Skinney-Þinganesi hlut sinn í fyrirtækinu í sumar, sem síðan keypti hlutinn sem eftir var í fyrirtækinu á þriðjudag.

Ekki hefur verið gefið upp hversu hátt verð Skinney-Þinganes greiddi fyrir skipin og aflaheimildirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×