Lögreglan í Kólombó, höfuðborg Srí Lanka, fann í gær vopnabúr í húsi nálægt alþjóðaflugvelli borgarinnar. Sautján manns voru handteknir og segir lögreglan fólkið hafa haft árás í hyggju. Lagt var hald á átta handsprengjur, tvær stærri sprengjur, riffil og skotfæri.
Þetta er í annað skipti á skömmum tíma sem sprengjur finnast í borginni, því síðastliðinn þriðjudag náðu sprengjusérfræðingar að aftengja stóra sprengju, sem hafði verið komið fyrir í körfu reiðhjóls við fjölfarna verslunargötu.
Stjórnarherinn gerði loftárás í gær á svæði tamíla, þriðja daginn í röð. Talsmaður hersins sagði að ráðist hefði verið á bækistöð Tamílatígra, sem þeir hefðu notað til skotárása yfir á svæði Srí Lanka-manna. Á Jaffna-skaga létust sex hermenn stjórnarhersins í gær eftir að hafa stigið á jarðsprengju í norðurhéruðunum. Sakaði talsmaður hersins Tígrana um að hafa komið jarðsprengjum fyrir á skaganum eftir að þeim hafi mistekist að ná þar yfirráðum. Ekki reyndist unnt að bera ummælin undir Tamílatígrana í gær.
Associated Press hefur eftir norrænu eftirlitssveitinni að Tamílatígrarnir hafi sleppt lögreglumanni úr haldi til að sýna vott um velvild, en maðurinn var fangi þeirra í ellefu mánuði.