Skoðun

Grænlenska sleðahundaheilkennið

Í vor bárust fréttir af því að félagsmálaráðherra hefði ákveðið að flytja þjónustu fæðingarorlofssjóðs til Norðurlands vestra og þar með fjölga opinberum þjónustustörfum á svæðinu. Nú hafa stöðugildin verið auglýst í Húnaþingi vestra og fyrir liggur að opinberum þjónustustörfum verður einnig komið upp á Skagaströnd. Innheimtu umferðasekta hefur verið fundinn staður á Blönduósi. Þetta er allt fagnaðarefni því íbúar landsbyggðarinnar, ekki síst íbúar Norðvesturkjördæmis, hafa borið mjög skarðan hlut frá borði við fjölgun opinberra starfa á síðustu árum. Þeim hefur þó fjölgað gífurlega á þessu kjörtímabili en eru næstum öll á höfuðborgarsvæðinu. Tæknin leysir ýmislegtNútíma tækni gerir okkur kleift að vinna fjölbreytt störf, nánast hvar sem er á landinu. Tæknin þarf aðeins að vera aðgengileg - sem að vísu hefur ekki verið unnið nógu hratt að á vissum svæðum - og að hafa víðsýni og vilja til að dreifa starfsemi. Stjórnvöld hafa því miður staðið sig afar illa í þessum efnum og af því leiðir að fólk sem gengur menntaveginn á oft á tíðum ekki kost á því að nýta sér menntun sína við störf nema á örfáum stöðum á landinu. Reynslan hefur þó sýnt að fjölmargir einstaklingar sækja um hvert starf sem býðst hvort heldur er í Skagafirði, Húnaþingi vestra eða annars staðar í dreifbýlinu. Mýtan um að ekki fáist fólk til að sinna störfunum er ekki rétt nema í undantekningartilfellum. Bættar samgöngur munu gera það enn ákjósanlegra en nú að sækjast eftir vinnu í friði og ró og nábýli við náttúru dreifbýlisins. Undantekning

Flutningur starfa út á land er því miður undantekning. Oftar er dregið saman eða lokað, stundum vegna tækniþróunar, hagræðingar eða einkavæðingar en alltaf skortir vilja til að koma upp störfum í staðinn.

Þessi flutningur starfa nú er undantekning og hluti af mynstri sem kemur í ljós í aðdraganda hverra kosninganna eftir aðrar. Þetta mynstur má líka sjá í veitingu fjármagns til vegamála. Við munum eftir aukafjármagninu sem veitt var til vegagerðar rétt fyrir kosningar 2003 og hvernig stjórnarherrarnir börðu sér á brjóst við það tækifæri. Strax eftir kosningar var síðan dregið saman um tvo milljarða, þá aðra tvo og í ár er búið að boða samdrátt um rúman milljarð og tæpa 8 milljarða á næsta ári.

Spá mín er sú að stjórnarflokkarnir muni draga þennan síðasta samdrátt til baka fljótlega - sennilega uppúr áramótum - rétt fyrir kosningarnar. Og það vona ég svo sannarlega því samdrátturinn kemur harðast niður á þeim sem síst skyldi, þeim sem búa við stórhættulegt vegakerfi, ónýta vegi af völdum þungaflutninga, einbreiðar brýr, bratta fjallvegi, hættu af snjóflóðum og grjóthruni og holótta malarvegi á löngum köflum. Afleiðing alls þessa er m.a. að á Vestfjörðum er vöruverð hærra en gerist annars staðar á landinu. Það er óþolandi!

Sleðahundaheilkennið

Ástæða þess að ég reikna með að vonir mínar rætist er sú staðreynd að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur haga sér alltaf eins, hvert kjörtímabilið á fætur öðru. Ég kalla þetta atferli "grænlenska sleðahundaheilkennið" vegna þess að hegðun stjórnarflokkanna er alveg sambærileg við umhirðu Grænlendinga um sleðahundana sína. Grænlendingarnir halda hundunum sínum við hungurmörk allan þann tíma sem þeir þurfa ekki að nota þá. Þegar vetrar og hundarnir eiga að fara að draga sleða húsbónda síns er farið að fóðra þá, hundarnir styrkjast og draga sleða húsbónda síns þangað sem honum þóknast. Nú er að koma að kosningum og það þarf að hafa kjósendur góða. Þess vegna er verið að "fóðra þá" með störfum núna og þess vegna reikna ég með að vegafénu verði skilað til baka.

Ég tel alveg fullreynt að þessi ríkisstjórn hefur ekki áhuga né krafta sem þarf til þess að endurreisa atvinnulíf á landinu. Samfylkingin hafnar grænlenska sleðahundaheilkenninu en vill áætlun um hvernig eigi að færa atvinnulíf til nútímans, m.a. á þeim svæðum sem eru að fara halloka vegna þess að hefðbundnir atvinnuvegir eru á undanhaldi. Við þurfum skipulag og stöðuga þróun í atvinnu- og byggðamálum, þróun í rétta átt en ekki atferli sem hentar ráðamönnum hverju sinni og leiðir í raun til stöðugrar hnignunar. Er ekki kominn tími til að landsmenn krefjist stefnu í búsetu- og atvinnumálum landsins?




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×